news

Jólaferð á Hliði

06. 12. 2019

Föstudaginn 6. desember fóru börn og starfsfólk á Hliði í hina árlegu jólaferð. Lagt var afstað með strætó strax eftir morgunmat kl. 9.15 alla leið í miðbæ Reykjavíkur þar sem fyrsta stopp var ávaxtastund fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík.

Áfram var svo haldið í miðborginni þar sem Jólakötturinn varð á vegi þeirra stór og stæðilegur baðaður ljósum.

Því næst héldu þau í áttina að skautasvellinu við Ingólfstorg. Skautasvellið var að vísu lokað en börnunum þótti mjög gaman að skoða það.

Ferðin hélt áfram að Alþingishúsinu í Reykjavík, en á leiðinni bar fyrir sjónir skrítinn sirkuskarl frá Ameríku sem þótti svolítið merkilegur í augum barnanna.

Eftir að hafa skoðað Alþingishúsið var gengið að jólatrénu við Austurvöll þar sem börnin sungu með hárri rausn nokkur jólalög áður en þau fóru niður að tjörn þar sem þau gáfu fuglunum brauð. Sumir voru töluvert varir um sig og voru ekkert endilega til í að skoða þessa fugla.

Þegar brauðið var búið og fuglarnir búnir að fá nóg var hauslausi maðurinn með skjalatöskuna skoðaður áður en haldið var inn í Ráðhúsið í Reykjavík.

Inni í Ráðhúsinu kíktu þau á jólatréð sem þar stendur og lásu nokkrar kveðjur sem hanga á trénu. Kveðjurnar eru skrifaðar af grunnskólabörnum í Reykjavík. Að því loknu tóku þau strætó frá miðbænum að Grasagarðinum í Laugardalnum.

Þegar komið var í Grasagarðinn var kominn tími til að næra sig. Allir fengu pasta með tómatsósu og pylsum í hádegismatinn úr nestisboxunum sínum.

Eftir matinn fengu börnin að heyra hvað Sveinki og Sveinka gerðu þegar þau fengu að fara heim með Vuk og Lóu daginn áður. Að sögustundinni lokinni var smá slökun og skoða sig um í Grasagarðinum og allt jólaskrautið sem þar er búið að setja upp. Áður en haldið var aftur heim á leið í leikskólann með strætó fengu allir heitt kakó og smákökur.

Á leiðinni til baka var komið við í Ásgarði og meðan þau biðu eftir strætó fengu allir smá nónhressingu. Þau komu til baka í leikskólann um 15.30, þetta var svakalega skemmtileg ferð og börnin voru svakalega dugleg allan daginn.


© 2016 - 2020 Karellen