news

Gleði og gaman á fyrsta starfsdegi vetrarins

16. 09. 2021

Miðvikudaginn 15. September var fyrsti starfsdagur vetrarins af fjórum.

Dagurinn var vel nýttur og byrjaði á fyrirlestri um það hvernig við getum haft áhrif á eigin vellíðan og velferð á vinnustaðnum. Sara Pálsdóttir er lögfræðingur og dáleiðari, en hún hefur sjálf unnið mikið í sjálfri sér og lært að breyta sínu eigin hugarfari á jákvæðan og árangurs ríkan hátt í átt að betra og farsælara lífi bæði í einkalífi og vinnunni. Fyrsta verkefni morgunsins var því að byrja á því að setja sér markmið sem var að setja allar neikvæðar hugsanir um sjálfan sig á bannlista og einbeita sér aðeins að því góða, jákvæða og fallega hjá okkur sjálfum og í nærumhverfi okkar, s.s. að einbeita okkur að því sem við erum góðar í.

Þá var komið að því að koma í orð allt það sem við erum ánægðar með á vinnustaðnum okkar og við vorum allar sammála um að vinnustaðurinn okkar er frábær og hér er gott að vera, við eigum frábæran leikskólastjóra, erum miklir húmoristar, vinnum með æðislegum börnum, flottum foreldrum, við vinnum faglegt starf, erum svo heppnar að vinna í fallegu og heimilislegu umhverfi, við fáum hollan og góðan mat á hverjum degi, við fáum að fara í útiveru og fáum súrefni á hverjum degi og í starfsmannahópnum okkar ríkir mikil samkennd og samstaða. Við erum mjög ánægðar með leikskólann okkar sem vinnustað og erum stoltar af því að vinna á Holtakoti.

Því næst tók við skipulagning á starfi vetrarins á hverri deild fyrir sig, þar sem var hugað að öllum þeim verkefnum sem við vinnum með börnunum okkar.

Eftir hádegið fengum við svo annan fyrirlestur en í örlítið öðru formi en sá fyrri. En það var hann Jóel Sæmundsson sem var með fyrirlestur um skemmtilegheit á vinnustað sem skyldi eftir sig mikla gleði og hlátur í hópnum.

© 2016 - 2021 Karellen