news

Haustið

06. 10. 2021

Þá er september runninn sitt skeið í bili og október tekinn við. Á Holtakoti eru allir komnir í góða daglega rútínu með öllu sem því fylgir. Á Hliði er nóg að gera hjá elstu börnunum og hópurinn farinn að smella saman eftir að börnin sem fædd eru 2016 og 2017 sem voru á tveimur deildum síðasta vor sameinuðust á Hliði. Ína og Alice færðu sig af Tröð yfir á Hlið og svo í september bættist Sladjana í hópinn. Helga Linnet sérkennslustjóri er einnig á Hliði á mánudögum og miðvikudögum.

Á mánudögum fara börnin á Hliði í salinn og æfa sig í þrautabraut, Leikur að læra og fleira skemmtilegt. Annan hvern þriðjudag taka þau strætó í Ásgarð þar sem þau fara í hreyfingu í fimleikasalnum og annan hvern fimmtudag fara þau í íþróttahúsið í Álftanesskóla. Á föstudögum fer svo elsti árgangurinn í sund.

Börnin sem fædd eru 2018 og 2019 sameinuðust á Tröð í ágúst og þeim hefur gengið mjög vel að aðlagast saman. María fylgdi 2018 börnunum yfir á Tröð en auk hennar eru .þær Hildur og Sæa ásamt Helgu Linnet sem er á Tröð á þriðjudögum og föstudögum.

Börnin eru að æfa sig að flokka litina og læra hvað þeir heita, æfa sig að þekkja mismunandi form og læra málhljóðin með Lubba svo eitthvað sé nefnt. Á þriðjudögum fara börnin á Tröð í salinn þar sem þau æfa sig í þrautabraut og Leikur að læra. Þau eru líka mjög dugleg að skella sér í útiveru að leika og fara í gönguferðir í nærumhverfinu.

Á Mýri eru börn fædd fyrri hluta árs 2020 eða frá því í mars og fram í september. Sum byrjuðu í aðlögun í lok ágúst, einhver í september og svo núna í byrjun október. Aðlögun hefur gengið mjög vel hjá þessu litlu skottum sem flest öll hafa aðlagast mjög vel. Á Mýri vinna þær Kristín Jóna, Aldís, Tuqa, Laura og Alda Kría.

Börnin hafa verið að æfa sig að vera í leikskólanum og eru nú öll farin að sofa inni í hvíldinni sem er aldeilis stórt skref fyrir marga þar sem að mörg byrjuðu að sofa í vagninum sínum úti þegar þau byrjuðu á Holtakoti. Á miðvikudögum fara börnin í salinn í hreyfingu, en þá hefur verið sett upp þrautabraut sem hæfir hreyfiþroska þeirra. Þegar veðrið er gott hafa börnin farið út að leika og eru orðin mjög dugleg úti. Þau eru að verða öruggari og öruggari á útisvæðinu og finnst bara mjög gaman að fara út að leika.

Á Seylu eru líka börn sem fædd eru árið 2020 og eiga nánast öll afmæli í september. Börnin á Seylu byrjuðu í aðlögun í tveimur hollum í fyrstu og annarri vikunni í september. Aðlögunin hefur gengið bara nokkuð vel hjá flestum, en haustpestar hafa sett smá strik í reikninginn hjá sumum en þetta er allt að koma hjá þeim. Flest börnin sem eru á Seylu stoppa þó stutt hjá okkur, en þau koma svo til með að flytjast yfir á leikskólann Mánahvol sem fer alveg að verða tilbúinn. Þær Sigga, Ragna og Helga sem eru nú að vinna á Seylu eru starfsmenn Mánahvols og koma til með að flytjast með börnunum, en auk þeirra eru þær Rakel og Monika einnig á Seylu og verða þar áfram þegar Mánahvols-börnin eru flutt með þau börn sem eftir verða á Holtakoti, ásamt Elvu.

Þessi litlu börn sem eru að stíga sín fyrstu skref í skólagöngu sinni og eru að læra að vera í leikskólanum. Dagleg rútína er ávallt sú sama sem er mikið öryggi fyrir þessi litlu blóm, það eru ákveðnir fastir punktar í rútínu dagsins sem þau geta alltaf stólað á og hver dagur hefst eins og sá fyrri. Á fimmtudögum er hreyfing í salnum eða inni á deild. Börnin eru enn að kynnast húsakynnum leikskólans og að læra að fara út að leika.


© 2016 - 2021 Karellen