Opnunartími

Leikskólinn er opinn mánudaga til föstudaga 7.30 til 17.00

Börn eru slysatryggð í leikskólunum.

Leikskólinn er lokaður á skipulagsdögum starfsfólks sem eru 3,5 dagar á ári og eru auglýstir sérstaklega bæði á skóladagatali og með tölvupósti. Einnig er lokað á rauðum dögum t.d. yfir jól og áramót, páskana, 1. maí, uppstigningadag, sumardaginn fyrsta, hvítasunnuna og 17. júní. Allir þessir dagar eru merktir inn á dagatal leikskólans sem nálgast á hér.

Sumarfrí

Börn í leikskólum Garðabæjar taka samfellt 4 vikur í sumarfrí yfir sumarmánuðina eða á orlofstímabilinu 15.maí - 15. september. Skila þarf sumarleyfisóskum fyrir 15. apríl 2018 til skólans vegna skipulagninga sumarleyfa.

Að byrja í leikskóla

Þegar barn hefur fengið leikskólapláss á Heilsuleikskólanum Holtakoti, þarf að staðfesta plássið við leikskólastjóra. Síðan eru foreldrar boðaðir á fund með deildarstjóra viðkomandi deildar og fá kynningu á helstu starfssemi leikskólans og á húsakynnum leikskólans. Einnig fær deildarstjóri upplýsingar um hagi barnsins og foreldrar fá að vita hvernig aðlögun gengur fyrir sig. Síðan er farið til leikskólastjóra til að undirrita dvalarsamning barnsins.

Aðlögun.

Mikilvægt er að standa vel að aðlögun barns í leikskóla frá upphafi. Hvernig til tekst í byrjun getur haft áhrif á alla leikskólagöngu barnsins. Barnið þarf að aðlagast nýju umhverfi, kynnast börnum og fullorðnum sem fyrir eru, læra að vera í hóp, virða reglur o.fl. Leikskólakennari og foreldri ræða saman um tilhögun aðlögunarinnar. Á Holtakoti notum við svokallaða þátttökuaðlögun þar sem a.m.k. annað foreldri dvelur með barninu í þrjá daga á leikskólanum. Meðan á aðlögun stendur gefst foreldrum tækifæri til að kynnast starfsmönnum deildarinnar og því starfi sem fram fer í leikskólanum, einnig gefst foreldrum tækifæri til að kynnast innbyrgðis. Með því er lagður góður grunnur að ánægjulegri leikskóladvöl. Mikilvægt er að jákvæð samskipti skapist á milli foreldra og starfsmanna því það stuðlar að jákvæðum viðhorfum barnsins til leikskólans.

Hér er hægt að lesa móttökuáætlun Heilsuleikskólans Holtakots

Vistunartími og veikindi

Þegar barn byrjar í skólanum er gerður skriflegur vistunarsamningur við foreldra um vistunartímann en skólinn er opinn virka daga frá k. 7:30 til 17:00. Ef breytinga er þörf á vistunartíma er gagnkvæmur uppsagnartími einn mánuður og er miðast við 1. og 15. hvers mánaðar. Breytingar taka alltaf mið af samsetningu hópsins og mönnun.

Leikskólinn er opinn allt árið en öll börn taka samfellt sumarleyfi í fjórar vikur og fellur greiðsla fyrir júlímánuð niður. Leikskólar í Garðabæ eru lokaðir 4 skipulags daga, þar af tvo hálfa daga yfir árið, sjá nánar á skóldagatali. Einnig er skólinn lokaður rauða almanaksdaga eins og jól, páska, 1. maí ofl. Öll börn eru slysatryggð í skólanum.

Það er mikilvægt að skólinn fái allar upplýsingar um fjarvistir og eru foreldrar beðnir að tilkynna ef um veikindi er að ræða og ef barn er í leyfi. Í skólastarfinu ert gert ráð fyrir þátttöku barna og því ætti veikt barn eða barn sem er að veikjast að vera heima. Útiveru er sleppt í undantekningar tilvikum. Þegar barn hefur verið veikt heima með hita þarf það var vera hitalaust í 1-2 sólarhringa áður en það kemur í skólann aftur. Veikist barn eða slasast í skólanum er strax haft samband við foreldra. Ef barn er með fæðuóþol eða ofnæmi þarf að skila inn læknisvottorði frá viðeigandi sérfræðingi.

Svefn og hvíld

Hvíld og svefn er börnum nauðsyn svo þau geti notið dagsins og þeirra verkefna sem hann býður upp á. Hvíldarstund er eftir hádegismat og er kyrrðarstund sem börn og starsfólk á saman. Þau börn sem ekki sofa eiga rólega stund ásamt starfsmanni lesa bók eða dunda sér í rólegheitum. Þessi samvera stuðlar að aukinni öryggiskennd og vellíðan barnanna. Í skólanum eru dýnur, lök, koddar og teppi fyrir öll börn. En þau mega gjarnan hafa kúrudýr með sér að heiman og/eða snuð fyrir þau sem það þurfa, sem er geymt hjá sængurfötum þeirra í skólanum. Svefntíminn er ákveðinn í samráði við foreldra.

Útivera og útbúnaður

Boðið er upp á útiveru daglega en gert er ráð fyrir að öll börn fari í það minnsta einu sinni á dag í útiveru. Fatnaður barna þarf því að vera í samræmi við veðurfar.

Á hverri deild eiga börn sérstakan kassa undir aukaföt og í því eiga að vera auka nærföt, sokkar/sokkabuxur, peysa og buxur.

Eftir árstíma þarf að hafa í skólanum:

Pollagalli / vindgalli / snjógalli

Stígvél / kuldaskór / strigaskór

Húfu, lambúshetta / buff / derhúfa

Ullarvettlingar / vatnsheldirvettlingar

Hlý peysa / buxur / sokkar

Inniskó fyrir þá sem það kjósa

Skólinn er vinnustaður barnanna og því mikilvægt þau komi í þægilegum vinnufatnaði sem þolir hnjask og má óhreinkast. Þá er nauðsynlegt að merkja allan fatnað vel.

Á mánudögum er komið með allan fatnað fyrir vikuna og á föstudögum eru hólfin tæmd. Athugið að taska undir fatnað er tekin heim.

Bleyjur og tilheyrandi

Foreldrar sjá um að skaffa bleyjur og klúta fyrir þau börn sem þess þurfa. Starfsmenn deilda passa að láta foreldra vita þegar þarf að fylla á bleyjur eða klúta. Þegar kemur að þeim tíma að barn er tilbúið að hætta með bleyju er sú þjálfun unnin í samráði við foreldra. Mikilvægt er að fara ekki fram úr barninu og gefa því þann tíma sem þarf við að venjast koppnum og sleppa bleyjunni.

© 2016 - 2019 Karellen